Sólskinsbolur

$8,50

Sólskinsbolurinn er fimmta uppskriftin í Sólskinslínunni frá Vindu. Upprunalega Sólskinspeysan var hlý ullarpeysa með munstri sem minnti á geisla sólarinnar.  Sólskinsbolurinn er hinsvegar tilvalinn til að nota á íslenskum sumardegi þegar sólin skín, nú eða bara inni í upphituðum húsum eða undir úlpu! Uppskriftin er nokkuð byrjendavæn og það verður ennþá skemmtilegra að fylgjast með geislunum myndast þegar notað er handlitað garn með örlitlum litabreytingum.

Sólskinsbolurinn er prjónaður ofan frá og niður. Fyrst er stroffið í hálsmálinu prjónað í hring. Eftir það er berustykkið prjónað með jöfnum útaukningum þannig að lykkjunum fjölgar á sama tíma og sólargeislarnir eru myndaðir með því að færa lykkjur óprjónaðar á milli prjóna. Þegar berustykkið hefur verið prjónað er lykkjum skipt upp í ermar og bol og hvort tveggja prjónað þar til réttri lengd hefur verið náð.

Uppskriftin að Sólskinsbolnum kemur í níu stærðum. Málin sem eru gefin upp segja til um stærðina á flíkinni sjálfri og ég hvet fólk til að skoða þau frekar en nöfnin á stærðunum. Það er ekki gert ráð fyrir mikilli hreyfivídd í uppskriftinni en það er þó alltaf smekksatriði hversu víðar við viljum hafa flíkurnar. Þegar þið veljið stærð er það yfirvíddin sem er mikilvægust en hún segir til um málin yfir búkinn þar sem hann er breiðastur. Lengd á ermum og bol er alltaf hægt að breyta og auðvelt er að máta bolinn jafnóðum þar sem hann er prjónaður ofan frá og niður. Það getur verið skynsamlegt að bæta við garni ef þið hyggist lengja ermar eða bol.

Grunnupplýsingar
Stærðir: (XS) S (M) L (XL) 2XL (3XL) 4XL (5XL)
Yfirvídd: (89) 93 (97) 104 (111) 121 (133) 143 (157) cm
Lengd á bol að frátöldu stroffi í hálsmáli: (48) 51 (54) 57 (60) 63 (66) 69 (72) cm
Prjónfesta: 10 x 10 cm = 24 lykkjur og 38 umferðir slétt prjón á 3,5 mm prjóna

Garn
Eddugarn frá Garnbúð Eddu: (250) 300 (300) 300 (350) 350 (400) 400 (450) gr
Le Petit Organic Cotton frá Biches & Buches: (250) 300 (300) 300 (350) 350 (400) 400 (450) gr

Bolurinn á forsíðumyndinni er úr Eddugarni í litnum Vinda.

Prjónar
Hringprjónar: 3 mm (40 cm) og 3,5 mm (40 og 80 cm)
Sokkaprjónar: 3 mm