Sólskinsbarnapeysa opin

$8,65

Opna Sólskinsbarnapeysan er fjórða peysan í Sólskinspeysuseríunni. Sólskinspeysurnar eru léttar ullarpeysur með mynstri sem minnir á geisla sólarinnar. Fyrsta Sólskinspeysan var lokuð en fljótlega ákvað ég að gera opnar útgáfur af peysunni því þær eru ekki bara fallegar heldur líka praktískar og nýtast eins og léttur jakki. Opnar peysur eru líka kjörnar til að klæðast yfir kjól eins og fyrirsætan mín sýnir svo glæsilega.

Opna Sólskinsbarnapeysan er prjónuð ofan frá og niður, fram og til baka, slétt á réttunni og brugðið á röngunni. Hnappalistarnir eru prjónaðir samhliða peysunni sjálfri. Eftir hálsmálið er berustykkið prjónað með jöfnum útaukningum þannig að lykkjunum fjölgar á sama tíma og sólargeislarnir eru myndaðir.

Sjá nánari upplýsingar neðar á síðunni

Uppskriftin að opnu Sólskinsbarnapeysunni kemur út í sjö stærðum. Eins og alltaf er mikilvægt að skoða vel stærðirnar sem eru í boði. Málin sem eru gefin upp segja til um stærðirnar á peysunum sjálfum og ég hvet fólk til að skoða þau vel. Aldurinn sem er gefinn upp er ekki heilagur, börn eru auðvitað misstór eftir aldri og þegar velja á stærð skiptir mestu að yfirvíddin passi vel en hún segir til um ummálið yfir búkinn þar sem hann er breiðastur. Lengd á ermum og bol er alltaf hægt að breyta og auðvelt er að máta peysuna jafnóðum þar sem hún er prjónuð ofan frá og niður.

Stærðir: (1) 2 (4) 6 (8) 10 (12) ára
Yfirvídd: (58) 66 (73) 82 (86) 94 (97) cm
Lengd á bol að framan frá hálsmáli: (35) 39 (43) 48 (52) 55 (58) cm
Prjónfesta: 10 x 10 cm = 21 lykkja og 28 umferðir slétt prjón á 4 mm prjóna

Garn
Einn þráður Arwetta classic frá Filcolana: (100) 150 (150) 150 (200) 250 (250) gr (210 m/50 gr) og einn þráður Tilia frá Filcolana (50) 75 (75) 75 (100) 125 (125) gr (210 m/25 gr)

eða…

Einn þráður Merci frá Filcolana: (100) 150 (150) 150 (200) 250 (250) gr (200 m/50 gr) og einn þráður Alva frá Filcolana: (75) 75 (75) 100 (100) 125 (125) gr (175 m/25 gr).

Prjónar
Hringprjónar: 3 mm (u.þ.b. 60 og 80 cm) og 4 mm (u.þ.b. 60 og 80 cm)
Sokkaprjónar: 3 og 4 mm (eða langir hringprjónar fyrir magic loop aðferðina)

Annað
Tvö prjónamerki
(6) 6 (7) 7 (7) 8 (8) tölur u.þ.b. 1,5 cm í þvermál