Sólskinsbarnapeysa

$8,66

Sólskinsbarnapeysa er barnaútgáfan af Sólskinspeysunni sem er peysa fyrir fullorðna. Hugmyndin að Sólskinspeysunni kom til mín á köldum haustdegi þegar mig langaði að gera peysu sem minnti mig á vorið og sumarið. Úr varð peysa með mynstri sem líktist yljandi geislum sólarinnar.

Sólskinsbarnapeysa er prjónuð ofan frá og niður. Fyrst er stroffið í hálsmálinu prjónað í hring. Eftir það er berustykkið prjónað með jöfnum útaukningum á sama tíma og sólargeislarnir eru myndaðir.

Sjá nánari upplýsingar um stærðir og garn hér fyrir neðan.

Eins og alltaf er mikilvægt að skoða vel stærðirnar sem eru í boði. Málin sem eru gefin upp segja til um stærðirnar á peysunum sjálfum og ég hvet fólk til að skoða þau frekar en nöfnin á stærðunum. Börn eru auðvitað mismun-andi að stærð eftir aldri og mikilvægt er að yfirvíddin passi vel en hún segir til um málin yfir brjóstkassann. Lengd á ermum og bol er alltaf hægt að breyta og auðvelt er að máta peysuna jafnóðum þar sem hún er prjónuð ofan frá og niður. Það getur verið skynsamlegt að bæta við garni ef þið hyggist lengja ermar eða bol.

Stærðir: (1) 2 (4) 6 (8) 10 (12) ára
Yfirvídd: (58) 65 (73) 81 (86) 92 (96) cm
Lengd á bol frá handvegi: (20) 22 (25) 28 (31) 33 (35) cm
Lengd á ermum frá handvegi: (21) 24 (27) 31 (34) 37 (39) cm
Prjónfesta: 10 x 10 cm = 21 lykkja og 28 umferðir slétt prjón á 4 mm prjóna

Garn
Einn þráður Merino frá Knitting for Olive: (100) 100 (150) 150 (200) 200 (250) gr (250 m/50 gr) og einn þráður Soft silk mohair frá Knitting for Olive: (50) 75 (75) 100 (100) 125 (125) gr (210 m/ 25 gr). Gula peysan á forsíðunni er prjónuð úr þessu garni í litnum Kvæde.

Eða…

Einn þráður Merci frá Filcolana: (100) 150 (150) 150 (200) 250 (250) gr (200 m/50 gr) og einn þráður Alva frá Filcolana: (75) 75 (75) 100 (100) 125 (125) gr (175 m/ 25 gr). Bleika peysan er prjónuð úr Merci í litnum Strawberry Daiquiri og Alva í litnum Calypso.

Prjónar
Hringprjónar: 3 mm (40 og 60 cm) og 4 mm (40 og 60 cm)
Sokkaprjónar: 3 og 4 mm (eða langir hringprjónar fyrir magic loop aðferðina)

Tungumál

íslenska, english