Carlsen minkabani

$8,50

This pattern is currently only available in Icelandic.

Carlsen minkabani er peysa sem er mér mjög kær því hún er endurgerð af gamalli peysu sem langafi minn, Carl Anton Carlsen, átti. Hann var danskur en flutti ungur til Íslands og starfaði um árabil sem minkabani ríkisins. Carlsen var goðsagnakennd persóna í íslensku samfélagi um miðja 20. öld og gekk alltaf undir nafninu Carlsen minkabani.

Peysan Carlsen minkabani er samsett úr munsturbekkjum með sígildu norsku munstri. Hún er þó ólík norskum peysum að því leyti að hún er með laskaermum en ekki ísaumuðum ermum og peysan er prjónuð ofan frá og niður. Með þeirri aðferð er betur hægt að aðlaga lengd erma og bols að þeim sem peysan er ætluð án þess að munsturbekkirnir riðlist. Munsturbekkirnir eru tveir og þeir eru alltaf prjónaðir til skiptis.

Nánari upplýsingar um peysuna hér fyrir neðan

 

Carlsen minkabani er prjónuð úr mjúkri Peruvian Highland Wool frá Filcolana eða úr léttlopa. Eins og alltaf er mjög mikilvægt að skoða vel stærðirnar sem eru í boði áður en þið byrjið að prjóna peysuna. Yfirvíddin skiptir höfuðmáli og ég mæli með að þið skoðið málin frekar en nöfnin á stærðunum. Ermar og bolur eru í lengri kantinum og garnmagnið miðast við það en ég mæli með að fólk máti peysuna jafnóðum og aðlagi lengd á ermum og bol að þeim sem peysan er ætluð. Við erum auðvitað öll alls konar og það er auðvelt að máta peysuna jafnóðum af því hún er prjónuð ofan frá.

Carlsen minkabani er símunstruð peysa sem þýðir að það tekur tíma og einbeitingu að prjóna hana. Það er mikil vinna að prjóna munstur og það er ekkert meira svekkjandi en að leggja margra klukkustunda vinnu í peysu sem síðan passar ekki. Athugið vel prjónfestuna og það er mikilvægt að gera það með munsturprjóni því það er algengt að fólk prjóni annað hvort lausar eða fastar þegar það prjónar munstur. Farið upp um prjónastærð ef þið prjónið fast og öfugt ef þið prjónið laust.

Grunnupplýsingar

Stærðir: (XS) S (M) L (XL) 2XL (3XL)
Yfirvídd: (88) 95 (101) 107 (114) 120 (126) cm
Ermalengd frá handvegi: (47) 49 (51) 51 (52) 54 (55) cm
Lengd á bol frá handvegi: (38) 40 (43) 43 (45) 47 (49) cm
Prjónfesta: 10 x 10 cm = 19 lykkjur og 23 umferðir á 5 mm prjóna. Sannreynið prjónfestu með munsturprjóni til að fá rétta stærð.

Yarn
Peruvian Highland Wool frá Filcolana (einnig hægt að nota sama magn af léttlopa)

Litur A: (300) 350 (350) 400 (450) 500 (500) gr /100 m
Litur B: (250) 300 (300) 350 (400) 450 (450) gr /100 m

Litir: Dökk peysa / Ljós peysa
Litur A: Charcoal / Natural White
Litur B: Light Grey / Camel

Prjónar
Hringprjónar: 4 mm og 5 mm (40 og 80 cm)
Sokkaprjónar: 4 mm og 5 mm (eða langir hringprjónar fyrir magic loop aðferðina)