Í upprunalegu útgáfunni af peysunni eru fjórir munsturlitir auk aðallitar en það er að sjálfsögðu hægt að fækka litum eða fjölga eins og hentar. Hér er tækifæri til að nota garnafganga! Í brúnu peysunni á forsíðunni er einn munsturlitur úr Lamauld frá CaMaRose. Ástæðan fyrir þessu garnvali er einfaldlega sú að mig langaði að gera peysu úr ákveðnum litum sem voru ekki til í léttlopa og þá fann ég annað garn með svipaðri prjónfestu. Lamaullinn gefur líka aðeins loðnari og meira glansandi áferð sem mér finnst skemmtileg. Það er auðvitað hægt að prjóna peysuna eingöngu úr léttlopa eins og bláa peysan sýnir.
Eins og alltaf er mjög mikilvægt að gera prjónfestuprufu áður en þið byrjið að prjóna. Ég veit, þetta er ekki skemmtilegasti hlutinn af prjóna- skapnum en það er sérstaklega mikilvægt að athuga prjónfestuna þar sem notaðir eru stærri prjónar en oftast tíðkast með léttlopa. Notið minni prjóna ef þið prjónið laust og stærri prjóna ef þið prjónið fast. Við viljum enda með peysu í réttri stærð! Málin hér fyrir neðan gefa upp málin á peysunni sjálfri. Skoðið vel hvaða stærð hentar ykkur. Sjálfri finnst mér fallegt að hafa þessa peysu stóra og valdi því stærri stærð fyrir sjálfa mig en ég prjóna venjulega.
Grunnupplýsingar
Stærðir: (XS) S (M) L (XL) 2XL (3XL)
Yfirvídd: (96) 101 (106) 111 (116) 121 (126) cm
Ermalengd: (41) 42 (43) 45 (46) 47 (48) cm
Lengd á aftari hluta bols frá handvegi: (43) 46 (48) 50 (52) 54 (56) cm Prjónfesta: 10 x 10 cm = 16 lykkjur og 22 umferðir á 5 mm prjóna
Yarn
Litur A: (400) 450 (500) 550 (600) 650 (700) gr /100 m
Litur B, C, D og E: 50 gr af hverjum lit /100 m
Litir í brúnni peysu / blárri peysu
Litur A: Léttlopi Mórauður (0053) / Hafblár (9419)
Litur B: Léttlopi Spónn (1418) / Spónn (1418)
Litur C: Lamauld frá CaMaRose Turkis grön / Léttlopi Jökulblágrænn (1404)
Litur D: Léttlopi Sauðsvartur (0052) / Aprikósugulur (1704)
Litur E: Léttlopi Ax (1419) / Ryðbrúnn (9427)
Prjónar
Hringprjónar: 4 mm (40 cm) og 5 mm (40 og 80 cm)
Sokkaprjónar: 4 mm og 5 mm (eða langir hringprjónar fyrir magic loop aðferðina)