Sk*taveður

$5,10

Trefillinn Sk*taveður dregur nafnið sitt af veðrinu sem var daginn sem ég fékk hugmyndina að uppskriftinni í byrjun september 2022. Regnið buldi á stofuglugganum heima og haustið var mætt af fullum krafti, allt of snemma. Sannkallað skítaveður! Ég lagði frá mér það sem ég var að prjóna, klæddi mig í regngalla, arkaði út í næstu prjónabúð og keypti mér garn í þykkan og girnilegan trefil.

Sk*taveður er prjónaður með garðaprjóni fram og til baka. Byrjað er á öðrum enda trefilsins með fáum lykkjum sem fjölgar síðan með útaukningum þar til trefillinn hefur náð réttri breidd. Miðjuhlutinn sem fer um hálsinn er breiðastur og svo mjókkar trefillinn aftur. Hann er því þykkastur þar sem þörfin fyrir hlýju er mest en mjóir endarnir auðvelda að binda hann saman eftir smekk og þörfum.

Sjá meiri upplýsingar um trefilinn hér fyrir neðan

Trefillinn Sk*taveður er prjónaður úr þremur þráðum af garni í fingering grófleika og einum þræði af garni í lace grófleika. Hægt er að nota hvaða garn sem er úr þessum grófleika og tilvalið er að nota afganga í þetta verkefni. Þá er hægt að skipta út einum þræði í einu og leika sér endalaust með liti. Einnig er hægt að prjóna úr færri þráðum og nota þá grófara garn.

Trefillinn er í tveimur stærðum. Sá blágræni er stærri trefillinn. Hann er hægt að vefja þrjá eða fleiri hringi um hálsinn þegar veðrið er sem verst. Sá bleiki er minni trefillinn. Gott er að hafa í huga við val á stærð að garðaprjón teygist töluvert við notkun.

Stærðir: Styttri trefill / lengri trefill
Lengd: 170 / 210 cm
Prjónfesta: 10 x 10 cm = 14 lykkjur og 24 umferðir garðaprjón á 7 mm prjóna Prjónar: 7 mm hringprjónar (u.þ.b. 60 cm eða lengri)

Garn
Styttri trefill:
3 x 400 metrar af garni í fingering grófleika
400 metrar af garni í lace grófleika

Lengri trefill:
3 x 500 metrar af garni í fingering grófleika
500 metrar af garni í lace grófleika

Blágrænn trefill: Þrír þræðir af Isager highland wool (litir: Greece, Ocean og Turquise) og einn þráður af Isager silki mohair í svörtum lit.

Bleikur trefill: Þrír þræðir af Vatnsnesyarn merino fingering (litir: Rustic, Allt um kring og Balance) og einn þráður af ýmsum silkimohair afgöngum í ljósum off white litum.